Ferill 409. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 409 . mál.


Ed.

769. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 62 5. september 1986, um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara, húsgagna-

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



1. gr.

    Fyrirsögn laganna breytist þannig: Á milli orðanna „húsameistara“ og „húsgagna- og innanhússhönnuði“ komi orðið: landslagshönnuði.

2. gr.

    Á eftir 11. gr. laganna komi tvær nýjar greinar, sem verði 12. og 13. gr., og greinatala laganna breytist því til samræmis. Greinarnar orðist svo:

a.     (12. gr.)
.      Rétt til að kalla sig landslagshönnuði (landskabs-arkitekt) hafa þeir einir hér á landi sem fengið hafa til þess leyfi ráðherra.
b.     (13. gr.)
.      Engum má veita leyfi það sem um getur í 12. gr., nema hann hafi lokið fullnaðarprófi í landslagshönnun frá háskóla, sem ráðherra viðurkennir sem fullgildan í þeirri grein, að fenginni umsögn stéttarfélags landslagshönnuða hér á landi.
.      Þeir einir, sem fullnægja skilyrðum þeim, sem sett eru í 1. mgr. þessarar greinar, eiga rétt á að þeim sé veitt leyfi til að kalla sig landslagshönnuði.

3. gr.

    Lög þessi öðlist þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp það, sem hér er lagt til að lögfest verði og fjallar um breytingu á lögum nr. 62 5. september 1986, um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga,
húsameistara, húsgagna- og innanhússhönnuði, tæknifræðinga eða byggingafræðinga, er flutt að tilmælum Félags landslagsarkitekta.
    Ekki þótti fært að verða við þeim tilmælum að lögvernda orðið arkitekt, enda hafa t.d. félagar í Arkitektafélagi Íslands hið lögverndaða starfsheiti húsameistari, en ekki „arkitekt“ eins og starfsbræður þeirra erlendis.
    Sömu afgreiðslu hlutu tilmæli Félags húsgagna- og innanhússarkitekta hvað varðar löggildingu á orðinu arkitekt sem samtengingu og var starfsheitið húsgagna- og innanhússhönnuður lögverndað með lögunum nr. 17 30. apríl 1986.
    Með frumvarpi þessu fylgir bréf frá Félagi íslenskra landslagsarkitekta, dags. 10. febrúar 1988, um málefni þetta, en fyrst mun félagið hafa óskað eftir löggildingu á árinu 1983.
    Telja verður eðlilegt að þeir sem að landslagsskipulagi (landslagshönnun) starfa fái lögverndað starfsheiti, svo sem er um sambærilegar stéttir. Þá eru prentaðar sem fylgiskjöl umsagnir um málið sem aflað var frá þeim aðilum sem lög nr. 62 5. september 1986 taka til.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að í fyrirsögn verði tekið í upptalningu starfsheita, sem njóta lögverndar samkvæmt lögunum, orðið landslagshönnuður.

Um 2. gr.


    Um 12. og 13. gr. Með starfsheitinu landslagshönnuður er átt við þá, sem að menntun og starfsþjálfun eru hliðstæðir þeim, sem á erlendum málum nefnast: landscape architect (enska), landskabsarkitekt (danska), landschaftsarkitekt (þýska).
    Árið 1968 viðurkenndi Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) starfsheitið landslagsarkitekt og flokkaði það samhliða starfsheitunum húsameistari (arkitekt) og skipulagsfræðingur (town planner). Fag þetta er kennt á háskólastigi í yfir 150 skólum í 36 löndum.
    Félag íslenskra landslagsarkitekta, skammstafað FÍLA, var stofnað árið 1978 og er aðili að IFLA, International Federation of Landscape Architects.
    Félagar í FÍLA skulu hafa lokið námi frá háskóla sem IFLA (International Federation of Landscape Architects) viðurkennir. Við mat á skólum samkvæmt þessari grein er gert ráð fyrir að stuðst verði við mat IFLA.
    Félag landslagsarkitekta hafði upphaflega hug á að starfsheiti félagsmanna skyldi samkvæmt lögum þessum vera landslagsarkitekt, en vegna ákveðinnar andstöðu gegn því starfsheiti hefur verið fallið frá því. Félagið er nú meðmælt starfsheitinu landslagshönnuður, en telur sér hins vegar nauðsynlegt að nafnsins „landskabsarkitekt“ sé getið á erlendu máli innan sviga, þar eð sú skýring gefur til kynna starfssvið hliðstæðra starfshópa, t.d. í Danmörku. Er þetta gert í samræmi við önnur ákvæði laganna.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal I.


Félag íslenskra landslagsarkitekta FILA.
Pósthólf 1563
121 Reykjavík.

Reykjavík 10. febrúar 1988.QR

Hr. ráðherra Friðrik Sophusson
Arnarhvoli
Reykjavík.

    Félag íslenskra landslagsarkitekta fer þess á leit við yður að sem fyrst verði tekið á málum þess varðandi verndun starfsheitis.
    Það eru komin ein 8 ár síðan félagið fór fyrst að vinna að þessum málum og hinn 20. jan. 1983 fór stjórn félagsins á fund þáverandi ráðherra, Svavars Gestssonar, eins og meðfylgjandi bréf vitnar um.
    Ástæðan fyrir því að einmitt nú er aftur tekið á málum þessum, er sú að nú er nefnd að vinna að endurskoðun á byggingarlögum. Nefndin hefur lagt til að 12. gr. byggingarlaganna verði breytt þannig að landslagsarkitektar hafi ásamt arkitektum, verkfræðingum o.fl. rétt til þess að leggja fyrir byggingarnefndir.
    Það sem nú stendur í vegi fyrir þessu er að landslagsarkitektar hafa ekki lögverndað starfsheiti.
    Til upplýsinga má geta þess að menntun landslagsarkitekta er síst minni en t.d. arkitekta og verkfræðinga. Félag landslagsarkitekta er aðili að alþjóðasamtökum landslagsarkitekta I.F.L.A. en þau samtök halda skrá yfir þá háskóla (150 í 36 löndum) sem viðurkenndir eru til þess að útskrifa landslagsarkitekta.
    Í lögum félags landslagsarkitekta er einnig ákvæði um það að landslagsarkitekt verði að vinna tvö ár í greininni hér á landi áður en hann telst fullgildur landslagsarkitekt FÍLA.
    Félagar í Félagi landslagsarkitekta eru nú 18, þar af eru 10 sem starfa sjálfstætt en 8 sem starfa hjá því opinbera eða á teiknistofum. Í námi erlendis eru 10 manns sem vitað er um.
    Við vonumst til að málaleitan okkar verði tekið vel og að skjótt verði tekið á málum ekki síst vegna þeirrar endurskoðunar sem á sér stað á byggingarlögunum.

Með vinsemd og virðingu,


Félag íslenskra landslagsarkitekta


Pétur Jónsson formaður.




Hjálagt:
1.     Félagsskrá íslenskra landslagsarkitekta.
2.     Bréf til Svavars Gestssonar frá 20. jan. 1983.
3.     Lögverndun starfsheitis DP 5. des. 1983 ásamt greinargerð.
4.     Lög og samþykktir Félags íslenskra landslagsarkitekta.
5.     International Federation of Landscape Architects Educational Rapport 1983.



Fylgiskjal II.


Reykjavík 14. mars 1988.QR
Iðnaðarráðuneytið
Arnarhvoli
150 Reykjavík.

    Vísað er til erindis ráðuneytisins dags. 15. fyrra mán. þar sem þess er óskað að Tæknifræðingafélag Íslands láti í té umsögn um ósk Félags landslagsarkitekta um að starfsheiti þeirra verði lögverndað.
    Á fundi stjórnar TFÍ 9. þessa mán. var samþykkt að mæla ekki gegn erindinu.

Virðingarfyllst,


f.h. TFÍ


Kristín Guðmundsdóttir.





Fylgiskjal III.


Reykjavík í október 1988.QR
Iðnaðarráðuneytið
Arnarhvoli
Reykjavík.

    Á fundi stjórnar Félags húsgagna- og innanhússhönnuða, þann 10. mars 1988, var fjallað um bréf ráðuneytisins, dags. 15. febrúar 1988. Þar er greint frá ósk Félags ísl. landslagsarkitekta um að starfheiti þeirra verði lögverndað og fellt inn í lög nr. 62/1986, um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara, húsgagna- og innanhússhönnuði, tæknifræðinga eða byggingafræðinga.
    Félag húsgagna- og innanhússhönnuða vann að því í rúman áratug að fá lögverndun á starfsheitið húsgagna- og innanhússarkitekt. Það sem stóð í vegi okkar var að ekki fékkst lögverndun á viðskeytið - arkitekt. Andstaða var gegn því þrátt fyrir að á prófskírteini okkar sé það heiti, enda er þetta
alþjóðaheiti á starfssviði okkar. Lögverndun okkar gekk í gildi með lögum nr.62/1986, en með viðskeytinu - hönnuður.
    Stjórn Félags húsgagna- og innanhússhönnuða hefur ekkert á móti því að landslagsarkitektar fái lögverndun á starfsheiti sitt. Þó gerum við það að skilyrði að ef þeir fá lögverndun á viðskeytið - arkitekt verði málið tekið upp að nýju við okkur og það sama gangi yfir okkar starfsheiti. Ef fallist verður á umrædda lagabreytingu verði starfsheiti okkar félagsmanna húsgagna- og innanhússarkitekt.

Með kærri kveðju,


Þórdís Zoega,


formaður FHÍ.





Fylgiskjal IV.


Iðnaðarráðuneytið
c/o Guðrún Skúladóttir
Arnarhváli
101 Reykjavík.

    Á stjórnarfundi Arkitektafélags Íslands, 17. okt. sl., var tekið fyrir ítrekað erindi yðar varðandi ósk Félags landslagsarkitekta um að fá að bera starfsheitið „landslagsarkitekt“.
    Stjórn AÍ sér ekkert því til fyrirstöðu að starfsheitið „landslagsarkitekt“ verði lögverndað og fellt inn í lög nr. 62/1986.
    Þetta tilkynnist yður hér með.

Virðingarfyllst,


f.h. stjórnar AÍ


Lárus M. Björnsson,


framkvæmdastjóri AÍ.





Fylgiskjal V.


Reykjavík, 25. nóvember 1988.QR
Iðnaðarráðuneytið
bt. Guðrúnar Skúladóttur
Arnarhváli
150 Reykjavík.

    Framkvæmdastjórn Verkfræðingafélags Íslands fjallaði á fundi sínum 14. mars sl. um erindi ráðuneytisins vegna óskar Félags landslagsarkitekta um að starfsheitið landslagsarkitekt verði lögverndað.
    Verkfræðingafélag Íslands gerir engar athugasemdir við að starfsheitið landslagsarkitekt verði lögverndað.
    Beðist er velvirðingar á því að það virðist hafa gleymst í mars að tilkynna um þessa afgreiðslu stjórnarinnar.

Virðingarfyllst,


Kristinn Ó. Magnússon.